Skip to main content Skip to footer

Námstilhögun

Inngönguskilyrði

Við inngöngu í Tónskólann eru ekki gerð skilyrði um aldur eða tónlistarkunnáttu, en krafist er góðrar ástundunar og heimavinnu.


Stundaskrá

Nemandi og kennari koma sér saman um stundaskrá í hljóðfæragreinum og söng. Í tónfræðagreinum, hljómsveitastarfi og öðru samspili liggur stundaskrá fyrir í byrjun skólaárs.


Kennsla

Boðið er upp á fjölbreyttar leiðir í hljóðfærakennslu en kennsla í hljóðfæragreinum fer yfirleitt fram í einkatímum, í 20-60 mín. í senn, og tekur lengd kennslustunda mið af aldri nemanda og námsáfanga. Í hefðbundnu hljóðfæranámi er talað um fullt nám ef nemandi fær 60 mín. einkatíma á viku sem oftast er skipt í tvennt, 30 mín. í senn a.m.k. til að byrja með. Suzukikennslu er skipt í einkatíma í 30, 45 eða 60 mín. á viku og 60 mín. hóptíma aðra hverja viku. Einnig er boðið upp á samkennslu í upphafi hljóðfæranáms og í tónlistarkennslu Tónskólans í Fellaskóla þar sem kennt er á fiðlu og píanó í hóptímum og stuttum einkatímum.
 
Í tónfræðagreinum og forskóla er ávallt kennt í hópum
 
Miðað er við að nám í aðalgrein og tónfræðagreinum fylgist að.

Leyfisdagar

Hefðbundnir leyfisdagar eru þeir sömu og í almennum skólum:

•    Jólaleyfi
•    Páskaleyfi
•    Sumardagurinn fyrsti
•    Baráttudagur verkalýðsins 1. maí
•    Uppstigningardagur
•    Hvítasunna

Fjarvistir

Nemanda, sem ekki getur mætt í tíma, ber að tilkynna forföll með svo góðum fyrirvara sem mögulegt er. Um fjarvistir nemenda og kennara gilda þær almennu reglur að ekki er skylt að bæta upp einstakar kennslustundir sem falla niður vegna veikinda. Sé kennari forfallaður tvær vikur samfleytt eða lengur útvegar skólinn annan kennara eða nemanda eru bættar kennslustundir sem fallið hafa niður. Ef veikindi kennara eru svo tíð að kennsla skerðist verulega, þarf að ræða málið við skólastjóra. Ef nemandi mætir ekki í tvær vikur samfleytt án viðunandi skýringa missir hann skólaplássið.


Hljóðfæraleiga

Hægt er að fá strengjahljóðfæri og blásturshljóðfæri leigð hjá skólanum. Gerður er sérstakur samningur um leigu hljóðfærisins og er leigugjald greitt samhliða námsgjaldi við innritun. Leigutaki skuldbindur sig að skila hljóðfærinu í jafn góðu lagi og við upphaf leigutímans. Hljóðfæri í útleigu eru tryggð en leigutaki ber ábyrgð á hljóðfærinu og þarf að greiða fyrir viðgerð ef hljóðfærið verður fyrir tjóni upp að sjálfsábyrgðinni hjá tryggingafélaginu.