Skip to main content Skip to footer

Fiðla

Fiðlan er minnsta hljóðfærið í strengjafjölskyldunni og hefur hæsta tónsviðið. Á fiðlu er haldið þannig að hljóðfærið er sett á vinstri öxl, og vanginn lagður á þar til gert bretti, hökubretti. Fingur vinstri handar eru síðan settir á strengina til að breyta tónum. Boginn hafður í hægri hendi og strokið eftir strengjunum.

Tónlistarskóli Sigursveins er með Suzukideild þar sem mikil áhersla er lögð á nám fyrir yngri nemendur, hlustun, og hópastarf.

Fiðlan á rætur sínar að rekja mjög langt aftur í tíma og mörg hljóðfæri af svipaðri gerð hafa verið til í Evrópu og víðar mjög lengi. En fiðlan sjálf, þetta hljóðfæri sem við þekkjum í dag, var ekki fundin upp fyrr en á 16. öld. Það var á Ítalíu og er oftast talið verk Antonio Stradivari sem er þó ekki alveg satt. Nútímafiðlan var í þróun á hans tíð, en ekki er hægt að segja að einn maður hafi fundið hana upp. 

Frá því á barokktímanum hefur fiðlan verið eitt mikilvægasta hljóðfærið í sígildri tónlist til að spila laglínur. Hlutur hennar varð mjög stór á klassíska tímanum og enn meiri á þeim rómantíska. 
 
Þjóðlagafiðlur eru stundum eilítið öðruvísi en þær sem notaðar eru í sígildri tónlist, en þær eiga oft jafnvel enn lengri sögu þar sem áður voru notuð eldri hljóðfæri sem voru fyrirmyndir fiðlunnar, en síðar hefur verið farið að nota breyttar útgáfur af fiðlum.

Þótt rannsóknir séu af skornum skammti er vitað að fiðlur voru smíðaðar á Íslandi öldum saman og langt fram eftir 19. öld, ekki sízt í Þingeyjarsýslu og Húnavatnssýslu. Skapaðist að vissu marki sín fiðlusmíðahefðin í hverri sveit þar sem slíkar smíðar voru stundaðar.