Suzukinám í Tónskóla Sigursveins

Suzukitónlistarnám byggir á hugmyndafræði japanska fiðlukennarans dr. Shinichi Suzuki (1898-1998). Kennsluaðferðina nefndi hann sjálfur „móðurmálsaðferðina“ en eftir áralangar athuganir á því hvernig lítil börn læra móðurmál sitt, án fyrirhafnar að því er virtist, ákvað hann að athuga hvort hið sama ætti við um tónlistarnám. Með því að skapa jákvætt og hvetjandi tónlistarumhverfi sem og að gera foreldrana virka þátttakendur í náminu tókst honum að sýna fram á að hægt er að hefja formlegt tónlistarnám strax á unga aldri eða allt frá því börnin eru um þriggja ára gömul. Suzuki benti reyndar á að hægt væri að hefja undirbúning miklu fyrr eða með hlustun allt frá fæðingu.

Kynningarmynd um Dr. Shinichi Suzuki: http://www.youtube.com/watch?v=mP2WrGHwhGM&feature=related

Í Tónskóla Sigursveins D. Kristinssonar hefur verið starfrækt Suzukideild frá árinu 1987. Kennt er á fiðlu, víólu, selló, píanó og gítar. Við deildina starfa kennarar sem allir hafa hlotið viðurkennda Suzukikennaramenntun auk lokaprófs í tónlist. Við deildina er einnig virkt foreldrafélag sem styður við starfið á margvíslegan hátt en samfélag Suzukinemenda og -foreldra gegnir veigamiklu hlutverki í Suzukináminu.

Um Suzukinám

  •  Jákvætt umhverfi Mikil áhersla er lögð á hrós og hvatningu fyrir það sem vel er gert og einnig að skapa hvetjandi tónlistarumhverfi.
  • Formlegt tónlistarnám getur hafist snemma eða allt frá þriggja ára aldri. Áður en barn kemur í fyrsta tímann sinn fylgist það með einka- og hóptímum hjá öðrum börnum. Það er gert til að vekja áhuga hjá barninu og búa það betur undir það sem í vændum er.
  • Allir nemendur fá einn einkatíma í viku (lengd kennslustundarinnar ræðst af aldri nemandans og hve langt hann er kominn í náminu) og hóptíma aðra hverja viku.
  • Hlustun. Nemandinn lærir lögin eftir eyra með því að hlusta á námsefnið leikið af geisladiskum, af foreldrum og/eða öðrum nemendum.
  • Herminám er mikilvægt í byrjun þar sem hlutirnir eru sýndir en ekki er mikið um flóknar útskýringar. Foreldrarnir eru sterkustu fyrirmyndirnar í upphafi.
  • Foreldrar taka virkan þátt í náminu. Í upphafi læra þeir undirstöðuatriði í hljóðfæraleik, mæta í alla tíma, skrá heimaverkefni og æfa heima með barninu. Smám saman breytist hlutverk þeirra til samræmis við námsframvindu barnsins.
  • Námshraði ákvarðast af hverjum nemenda fyrir sig, þroska hans og hæfni.
  • Endurtekningar og upprifjun eldra námsefnis er snar þáttur í náminu og er sá hluti námsins sem þjálfar hvað mest öryggi og sjálfstraust nemandans.
  • Í hóptímum er félagslegi þátturinn virkjaður í bland við tónlistarþjálfunina. Nemendur læra að vinna og leika saman í hóp sem og að leika hver fyrir annan. Hóptímarnir veita bæði börnum og foreldrum stuðning og hvatningu í náminu.
  • Nótnalestur og tónfræði eru kennd þegar nemandinn er tilbúinn og hefur náð góðu valdi á grunntækni.
  • Engin formleg Suzukipróf eru til en útskriftir úr bókum fara fram á sérstökum útskriftartónleikum. Þar leika nemendur fyrirfram ákveðin lög og fá skriflega umsögn kennara.

Í Tónskólanum taka Suzukinemendur fullan þátt í öðru hefðbundnu starfi innan skólans sem henta þykir hverju sinni. Má þar nefna öflugt hljómsveitastarf, ýmiss konar samleiksverkefni og tónfræðigreinar. Þegar Suzukinemar hafa þroska og getu til taka þeir árspróf, stigs- og/eða áfangapróf til jafns við aðra nemendur skólans. Auk þessa koma þeir fram á fjölmörgum tónleikum bæði innan og utan skólans, sem einleikarar og í hóp.

Heimasíða Íslenska suzukisambandsins 

Facebook-síða Foreldrafélags Suzukideildar

Sjá nánari í bókinni Suzukitónlistaruppeldi eftir Kristin Örn Kristinsson

 

Að breyta hraða á tónlist

Til að breyta hraða á tónlist. Þetta breytir aðeins hraðanum en ekki tónhæðinni.

Nota forritið Audacity (það er frjáls hugbúnaður sem má hlaða niður hér: „audacity.sourceforge.net“ fyrir allar tölvur).

Opna lagið í forritinu.

Velja allt (Ctrl A á Windows eða Slaufa A á Mac).

Fara í stikuna efst og velja „Effect“ og velja „Change tempo“ í valmyndinni.

Þá opnast gluggi þar sem hægt er að slá inn nýtt hraðagildi í %.

Velja OK.

Prufa að spila lagið með því að ýta á play-hnappinn og stop-hnappinn að því loknu (annars er ekki hægt að „exporta“)

Ef hraðinn er ásættanlegur velja þá „File“ og „Export“ og velja AIFF eða WAV snið. Ef þú vilt velja MP3 þá þarf að sækja viðbætur fyrir forritið – ekkert mál fyrir tölvugrúskara.

Síðan má spila lagið í iTunes eða VLC eða WindowsMediaPlayer og nota þau forrit til að breyta laginu í MP3.

Svo er í framhaldinu líka hægt að brenna þetta á disk.

Gangi ykkur vel.