Það er ánægjulegt að segja frá því að Tónskóli Sigursveins er einn fimm skóla sem tilnefndir eru til íslensku menntaverðlaunanna fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.
Við erum þakklát fyrir tilnefninguna og ég óska öllum kennurum og nemendum skólans til hamingju. Leikskólaverkefnið hefur vakið athygli langt út fyrir skólann, enda frábært samstarfsverkefni sem nær til um 700 barna á hverju ári, styður við söngkennslu og stuðlar að skapandi starfi í meira en 30 leikskólum. Á hverju ári eru valin lög eftir íslensk tónskáld og útsett fyrir söng og hljóðfærahóp. Meira en 600 leikskólabörn heimsækja Tónskólann og æfa sig með hljóðfærahópum sem skipaðir eru nemendum okkar og fá hljóðfærakynningu. Öll forskólabörn Tónskólans taka þátt í verkefninu og hátt í 50 hljóðfæranemendur á hverju ári. Þátttakendur koma síðan fram saman á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar í Eldborgarsal Hörpu þar sem leikskóla- og forskólabörn flytja söngdagskrá við undirleik nemendahljómsveitar úr Tónskólanum.
Leikskólaverkefnið Karímarímambo var einnig tilnefnt til The Young Audiences Music Awards.