Nýjar sóttvarnarreglur voru kynntar um helgina. Það var léttir fyrir okkur í Tónskólanum að fá þær fréttir að hljóðfærakennslan fær að halda áfram í einkatímum. Fyrirkomulag hóptíma verður þó með sama sniði og undanfarnar vikur.

Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir eftirfarandi um tónlistarskóla:

Tónlistarskólum er heimilt að sinna einstaklingskennslu með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. Ekki er fleiri en tíu einstaklingum, þ.e. starfsfólki og nemendum, heimilt að vera í sama rými í einu, en gæta þarf að því að ekki verði um frekari blöndun hópa að ræða en í skólastarfi. Andlitsgrímur skulu notaðar í öllu starfi með nemendum þar sem því verður við komið. Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma í tónlistarskóla nema brýna nauðsyn beri til. Aðrir en starfsmenn sem koma í tónlistarskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur. Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar og búnað eftir hvern dag og milli einstaklinga og hópa í sama rými.

Það er ljóst að kennarar munu nota grímu þar sem því verður við komið. Varðandi grímunotkun nemenda gilda sömu reglur og hjá grunnskólunum þ.e. börn í 5. bekk og eldri munu nota grímu þar sem því verður við komið.

Við erum að vonum ánægð með að fá að hitta nemendur okkar en minnum á að enn gildir að ef minnstu einkenni láta á sér kræla þá heldur maður sig heima.