Það er ánægjulegt að segja frá því að Tónskóli Sigursveins er einn fimm skóla sem tilnefndir eru til íslensku menntaverðlaunanna fyrir framúrskarandi tónlistarkennslu og framlag til barnamenningar með árvissu samstarfi við rúmlega 30 reykvíska leikskóla.
Við erum þakklát fyrir tilnefninguna og ég óska öllum kennurum og nemendum skólans til hamingju. Leikskólaverkefnið hefur vakið athygli langt út fyrir skólann, enda frábært samstarfsverkefni sem nær til um 700 barna á hverju ári, styður við söngkennslu og stuðlar að skapandi starfi í meira en 30 leikskólum. Á hverju ári eru valin lög eftir íslensk tónskáld og útsett fyrir söng og hljóðfærahóp. Meira en 600 leikskólabörn heimsækja Tónskólann og æfa sig með hljóðfærahópum sem skipaðir eru nemendum okkar og fá hljóðfærakynningu. Öll forskólabörn Tónskólans taka þátt í verkefninu og hátt í 50 hljóðfæranemendur á hverju ári. Þátttakendur koma síðan fram saman á opnunarhátíð Barnamenningarhátíðar í Eldborgarsal Hörpu þar sem leikskóla- og forskólabörn flytja söngdagskrá við undirleik nemendahljómsveitar úr Tónskólanum.
Leikskólaverkefnið Karímarímambo var einnig tilnefnt til The Young Audiences Music Awards.
Nýjar sóttvarnarreglur frá 3. nóvember
Nýjar sóttvarnarreglur voru kynntar um helgina. Það var léttir fyrir okkur í Tónskólanum að fá þær fréttir að hljóðfærakennslan fær að halda áfram í einkatímum. Fyrirkomulag hóptíma verður þó með sama sniði og undanfarnar vikur.
Í reglugerð heilbrigðisráðherra segir eftirfarandi um tónlistarskóla:
Tónlistarskólum er heimilt að sinna einstaklingskennslu með 2 metra nálægðartakmörkun milli starfsfólks og nemenda. Ekki er fleiri en tíu einstaklingum, þ.e. starfsfólki og nemendum, heimilt að vera í sama rými í einu, en gæta þarf að því að ekki verði um frekari blöndun hópa að ræða en í skólastarfi. Andlitsgrímur skulu notaðar í öllu starfi með nemendum þar sem því verður við komið. Foreldrar og aðstandendur skulu almennt ekki koma í tónlistarskóla nema brýna nauðsyn beri til. Aðrir en starfsmenn sem koma í tónlistarskóla, svo sem vegna vöruflutninga, skulu bera andlitsgrímur. Ráðstafanir skulu gerðar til að þrífa og sótthreinsa byggingar og búnað eftir hvern dag og milli einstaklinga og hópa í sama rými.
Það er ljóst að kennarar munu nota grímu þar sem því verður við komið. Varðandi grímunotkun nemenda gilda sömu reglur og hjá grunnskólunum þ.e. börn í 5. bekk og eldri munu nota grímu þar sem því verður við komið.
Við erum að vonum ánægð með að fá að hitta nemendur okkar en minnum á að enn gildir að ef minnstu einkenni láta á sér kræla þá heldur maður sig heima.
Enginn starfsdagur
Það er ekki starfsdagur í Tónskólanum í dag, hlökkum til að fá nemendur í spilatíma.