Við fögnum því að frá 4. maí verður hefðbundin kennsla í
Tónskóla Sigursveins í samræmi við þær tilslakanir á
samkomubanninu sem taka þá gildi sbr. eftirfarandi upplýsingar á vef
mennta- og menningarmálaráðuneytisins :
„Takmarkanir á skólahaldi falla úr gildi frá og með mánudeginum 4.
maí. Þá verður starf leik- og grunnskóla með hefðbundnum hætti
og hvorki fjölda- né nálægðartakmörk munu gilda um nemendur á
leik- og grunnskólaaldri. Það á einnig við um frístundastarf barna
á leik- og grunnskólaaldri, s.s. íþróttaiðkun, æskulýðs- og
tómstundastarf og tónlistarnám.“
Einkatímar og hóptímar í hljóðfæraleik, forskóla, tónfræðagreinum og
samspili verða kenndir í skólanum en ítrustu kröfum um sóttvarnir
verður áfram fylgt og regla um tveggja metra fjarlægð á milli nemenda
eldri en 16 ára í heiðri höfð.
Því miður þarf að takmarka aðgengi foreldra að Tónskólanum í
samræmi við þær kröfur Reykjavíkurborgar að viðburðir í
skóla- og frístundastarfi séu án þátttöku foreldra og foreldrar
komi ekki inn í grunnskóla og frístundaheimili nema nauðsynlegt sé.
Foreldrar ungra Suzukibarna eru undanskildir þessari reglu þar sem
þeir eru virkir þátttakendur í tónlistarnáminu en reglu um tveggja metra
fjarlægð verður fylgt vel eftir.